Hér má sjá nokkur ummæli og sögur sem starfsmenn Veltibílsins hafa fengið að heyra í gegnum tíðina. Við hvetjum þig til þess að senda okkur línu og segja þína sögu.

Maður fékk tengdamóður sína, sem aldrei hefur viljað nota belti, til þess að fara í Veltibílinn. Eftir að hafa prófað bílinn kvaðst hún alltaf myndu nota beltin. 

Grindavík, júní 2022

Nú skil ég hvað mamma er að tala um þegar hún er alltaf að segja mér að spenna beltin.

Hólmavík, júní 2019

Einn sem hafði ekki prófað Veltibílinn áður fór með vinum sínum sem höfðu prófað. Hann spurði þá hvort hann þyrfti nokkuð að nota beltin. Vinirnir svöruðu: „Ertu vitlaus? Það eru bara brjálæðingar sem spenna ekki beltin!“

Strákaflokkur Keflavíkur sem prófaði Veltibílinn á ReyCup í júlí 2015

Við fórum í Veltibílinn í gær og skömmu síðar settumst við upp í rútu. Það var í fyrsta skipti sem við höfum allar spennt beltin í rútu án þess að vera sérstaklega beðnar um það.

Stúlknaflokkur ÍBV sem prófaði Veltibílinn á ReyCup í júlí 2015 

Strákurinn minn prófaði Veltibílinn í Langholtsskóla árið 2011, þá 10 ára gamall. Hann fékk sjokk eftir að hafa prófað þetta, svona gerðist þegar ekið væri óvarlega og svona kæmu bílbeltin að gagni. Síðan þá fæ ég ekki stundlegan frið í tengslum við bílbeltin. Hann passar alltaf upp á að ég og aðrir í bílnum spenni beltin. Og þetta kom frá honum sjálfum, ég sagði ekki orð við hann um þetta.

Móðir úr Langholtsskóla, árið 2013

Ég fékk að fara í Veltibílinn og lærði þar að losa mig úr belti á hvolfi. Að mati lækna bjargaði það lífi mínu og ófædds barns míns þegar ég lenti sjálf í bílveltu, komin langt á leið. Bíllinn endaði á toppnum og ég þurfti að losa mig. Þá mundi ég eftir því sem ég lærði á námskeiðinu og komst ómeidd út úr bílnum.

19 ára stúlka, árið 2007

Ég fór á námskeið ungra ökumanna hjá Sjóvá, hafði lent í bílveltu skömmu áður og fékk ítrekaðar martaðir þar sem ég upplifði bílveltuna. Ég ákvað, þrátt fyrir að vera nokkuð hrædd, að fara í Veltibílinn þar sem hann var hluti af námskeiðinu. Ég upplifði veltuna aftur og það hjálpaði mér að vinna tilfinningalega úr afleiðingum slyssins. Takk fyrir mig.

18 ára stúlka, árið 2002

Ég er foreldri ungs barns sem losar sig gjarnan úr bílbeltinu. Ég ákvað að fara með barninu í Veltibílinn til þess að leyfa því að finna fyrir gildi bílbeltanna. Ég tel að það hafi hjálpað mér við að komast fyrir þetta vandamál.

Ungur faðir í Áslandsskóla í maí 2011

Strákurinn minn fór í Veltibílinn hjá ykkur þar sem hann var við Langholtsskóla á vorhátíð. Mér hættir til að gleyma að spenna beltin en ég óttast að héðan í frá fái ég engan frið því strákurinn minnir mig stöðugt á, eftir að hafa farið í Veltibílinn.

Faðir í Langholtsskóla vorið 2011.

Þegar ég var í 10. bekk heimsótti ég Sjóvá og fékk að fara í Veltibílinn. Þar lærðum við m.a. að losa okkur úr belti á hvolfi. Þegar ég var á ferð í Bandaríkjunum nýverið lentum við fjölskyldan í því að velta bílnum á fjölfarinni hraðbraut. Bíllinn endaði á hvolfi. Það greip um sig mikil hræðsla í bílnum og enginn vissi hvað átti að gera. En ég gat, sem betur fer, leiðbeint fjölskyldunni minni um hvernig átti að losa sig úr beltunum og við komumst öll ómeidd út úr bílnum.

18 ára strákur, árið 2008

Fjórir ungir menn um tvítugt fóru í Veltibílinn á Kótelettunni sunnudaginn 12. júní 2011. Þeir höfðu það á orði áður en þeir fóru í bílinn að bílbeltin væru nú ekkert svakalega mikilvæg og vildu helst fara án þeirra í veltu. Eftir að hafa farið hringinn sögðu tveir þeirra við starfsmann Veltibílsins að þeir hefðu lært sína lexíu og myndu eftirleiðis nota bílbeltin.

Kótelettan á Selfossi Hvítasunnuhelgina 2011