Veltibíllinn hefur marg sannað gildi sitt á þeim árum sem hann hefur verið í notkun en fyrsti bíllinn fór í notkun árið 1995.
Aðalmarkmið með honum er að leyfa notendum að finna hversu mikilvægt er að nota bílbelti, hvort sem það er í framsæti eða aftursæti.
Stundum er spurt hvers vegna hann sé notaður sem leiktæki? Jú nám nær bestum árangri með leik. Börn og unglingar sem fara í bílinn finna hve mikilvægt það er að spenna beltin þegar sest er í bílinn, auk þess sem þau læra ákveðin undirstöðu atriði við notkun þeirra, s.s. að strekkja þau.
Bíllinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í námskeiðum og margir ökuskólar hafa nýtt hann í sínu ökunámi. Umferðarstofa hefur fullyrt að veltibíllinn hafi verið það tæki sem mest hefur haft áhrif á aukna notkun bílbelta. Það sýndi sig þegar ný reglugerð um ökuskírteini leit dagsins ljós og Samgöngu- og Sveitastjórnarráðuneytið ákvað að skylda alla ökunema til að fara í veltibíl. Sú reglugerð tók gildi 1. janúar 2010 og er veltibíllinn hluti af Ökuskóla 3.